Fjárhagsaðstoð
Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Fjölskyldusvið Árborgar veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og reglum um fjárhagsaðstoð í Árborg. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu.
Réttur til fjárhagsaðstoðar
Einstaklingar með lögheimili í Árborg sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum geta sótt um fjárhagsaðstoð. Tekjumörk eru miðuð við upphæð fjárhagsaðstoðar. Fólk sem er í skráðri sambúð í Þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.
Umsækjanda ber að kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en sótt er um fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, Menntasjóði námsmanna, fæðingarorlofssjóði, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem er veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er endurkræf. Heimildir eru til styrkja eða láns vegna sérstakra aðstæðna.
Umsókn um fjárhagsaðstoð
Sækja skal um í gegnum: https://island.is/umsoknir/fjarhagsadstod og skal skila þar með tilheyrandi fylgigögnum. Á umsóknareyðublaði koma fram upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir.
Upphæð fjárhagsaðstoðar
Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða kr. 207.864. Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning því til staðfestingar.
- Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð er 1,6 eða kr. 332.583. Frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragast skattskyldar tekjur.
- Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa með öðrum, leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hafa ekki aðgang að húsnæði er 0,8 eða kr. 166.291.
- Framfærslugrunnur einstaklinga sem búa hjá foreldrum. 0,45 eða kr. 93.539.
Skerðing fjárhagsaðstoðar
Hafi umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa er heimilt að greiða honum hálfa grunnupphæð til framfærslu þann mánuð sem umsækjandi hafnar vinnu og mánuðinn þar á eftir. Sama á við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki sýnir fram á staðfesta skráningu sína frá Vinnumálastofnun. Þá skerðist með sama hætti réttur umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu og einstaklingsmiðaðri áætlun hjá ráðgjafa, nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því.