Fjölmenning í Árborg
Árborg er orðið mjög fjölmenningarlegt sveitarfélag. Hér búa yfir 1250 manns með erlent ríkisfang auk fjölda íbúa með fjölmenningarlegan bakgrunn sem eru þegar komnir með íslenskan ríkisborgararétt. Þeir koma úr mismunandi áttum, eru með fjölbreytta reynslu, menningu og menntun og auðga þannig sveitarfélagið.
Í leik- og grunnskólum Árborgar eru margir nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn og uppruni þeirra er mjög mismunandi. Í flestum tilfellum tala báðir foreldrar annað tungumál en íslensku en einnig eru nemendur þar sem annað foreldri þeirra er með íslensku sem móðurmál. Í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins eru töluð samtals 42 tungumál. Stærsti hópurinn eru börn þar sem foreldrar tala pólsku og síðan koma börn þar sem foreldrar þeirra tala ensku.
Ýmis þjónusta stendur til boða fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn á vegum sveitarfélagsins sem og annarra stofnana og félagasamtaka. Hér má nefna Bókasafn Árborgar með úrval bóka og tímarita á mörgum tungumálum, Klúbbinn Strók með reglulega fundi, hittingar á vegum Rauða Krossins og íslenskukennslu sem Fræðslunet Suðurlands býður upp á.
Fjölmenningarteymi
Í Sveitarfélaginu Árborg var stofnaður faghópur árið 2015 til að vinna m.a. að áætlunargerð og stefnumótun fyrir fjöltyngda nemendur skólanna og fjölskyldur þeirra. Hópurinn var skipaður fulltrúum frá öllum leik – og grunnskólum sveitarfélagsins og fulltrúum frá skólaþjónustunni og félagsþjónustunni og hlaut nafni Fjölmenningarteymi. Það er fundað reglulega og árið 2020 bættust fulltrúar frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.