Barnavernd

Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Það er því hlutverk barnaverndar að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu.

Þegar barnavernd hefur fengið tilkynningu um barn, meta barnaverndarstarfsmenn hvort ástæða sé til að kanna málið nánar. Foreldrar barns eru í flestum tilvikum látnir vita af tilkynningu og vinnunni sem mun fara í gang. Undantekning á því er ef barn er talið vera í hættu í umsjá foreldra og það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldri viti ekki af könnuninni í bili.  

Vinna barnaverndar, sem fer af stað þegar ákvörðun hefur verið tekinn um að kanna skuli málið, felst í því að fá greinargóðar upplýsingar um barnið og hagi þess, svo stuðningur og aðstoð við barn, foreldra og fjölskyldu verði sem markvissastur. Í flestum tilfellum felst stuðningur barnaverndar í stuðningsviðtölum, ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningum. Eins getur barnavernd útvegað barni stuðningsfjölskyldu, verið í samtarfi við skóla og leikskóla o.fl.  

Gangi samstarf milli barnaverndar og foreldra ekki upp og aðstæður barns eru enn taldar óviðunandi getur reynst nauðsynlegt að barn fari í fóstur. Mikilvægt er að hafa í huga að fósturráðstöfun kemur aðeins til greina ef öll önnur og vægari úrræði hafa ekki skilað tilsettum árangri. 

Nánari upplýsingar á vefsíðu Árborgar: https://www.arborg.is/stjornsysla/svid-og-deildir/fjolskyldusvid/felagsthjonusta-1