Hinseginvika í Árborg

Vikuna 16.-22. janúar fer fram hinseginvika í Árborg. Þema vikunar er fræðsla og sýnileiki.  

Það verður ýmislegt á döfinni þessa vikuna þar sem stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins eru hvött til að taka þátt með ýmsum hætti.  

Fyrstu bekkingum í öllum skólum Árborgar verður færð bókin “Vertu þú!” að gjöf. Bókin segir litríkar sögur af fjölbreytileikanum og hvetur til fordómaleysis og víðsýni. Höfundar bókarinnar eru Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir.  

Í grunnskólunum fer fram fræðsla fyrir 7. og 10. bekkina. Hugrún Vignisdóttir sálfræðingur verður með fræðsluna og ætlar að fara yfir hugtök hinseginleikans. Hún fer meðal annars yfir það hvað þýðir að vera trans eða kynsegin, hvað er kyntjáning, kynvitund og kynhneigð. Einnig fer hún yfir hvað er viðeigandi að tala um og hvað ekki.

Hugrún hefur verið starfandi sálfræðingur í áratug og starfar nú á stofunni sinni, Zen Sálfræðistofa á Selfossi. Hún hefur unnið í skólakerfinu á Suðurlandi sem og í meðferðarvinnu. Hennar sérhæfing liggur meðal annars í málefnum trans barna og fjölskyldna þeirra.  

Hugrún verður einnig með TEAMS fræðslu sem er opin öllum þriðjudaginn 17. janúar og hefst hún klukkan 20:30. Hér er hlekkur á fræðsluna: https://www.arborg.is/vidburdadagatal/fraedsla-um-hinseginleikann 

Þau sem vilja afla sér upplýsinga um málefni hinseginleikans hvetjum við til þess að skoða heimasíðuna Ö-A. https://otila.is/ 

Ef spurningar vakna endilega hafið samband á dagbjort.hardar@arborg.is